Lúðvík ætlar ekki að gera "neitt" en bendir á hvaða aðferð bæjarbúar geti notað til að knýja fram nýjar kosningar um málið. Það er hinsvegar skýrt að verkefni hans og annarra bæjarfulltrúa eru nokkur í ljósi niðurstaðna síðustu íbúakosninga.
Á heimasíðu Sólar í Straumi - www.solistraumi.org tilgreinir Pétur Óskarsson nokkur þeirra
1. Ganga þarf frá lóðamálinu. Hafnarfjarðarbær þarf að fá aftur til ráðstöfunar lóðina sem Alcan hafði keypt undir stækkun. Bærinn þarf á þessari lóð að halda í framtíðinni undir atvinnustarfsemi og engin ástæða til að draga á langinn að ganga frá því. Það er nokkuð víst að verðmæti lóðarinnar hefur margfaldast frá því að hún var seld en rétt er að leggja öll spilin á borðið og útskýra fyrir bæjarbúum af hverju Alcan fékk að kaupa þessa nýju lóð undir stækkun sem eignarlóð árið 2003. Álverið sjálft stendur á leigulóð í dag og hvorki bæjarbúar né önnur hafnfirsk fyrirtæki fá að kaupa eignarlóðir í bæjarlandinu.
2. Ganga þarf frá samkomulagi við Landsnet um lagningu á rafmagnslínum í jörð frá álverinu og út fyrir alla byggð. Það hefur lengi legið fyrir að ganga þyrfti frá þessu máli. Stækkunarmálið seinkaði þessari vinnu en nú þarf að klára þetta mál með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.
3. Ganga þarf frá þynningarsvæðinu í kringum álverið. Lúðvík bæjarstjóri lofaði Hafnfirðingum á opnum borgarafundi fyrir kosningar um stækkunina að hart yrði gengið eftir minnkun þynningarsvæða álversins yrði stækkunartillagan felld. Hér þarf Hafnarfjarðarbær að gera strangar kröfur og krefjast þess að öll heilsufars- og gróðurverndarmörk verði uppfyllt við lóðamörk. Það er óeðlilegt og væntanlega ekki þörf á að Hafnarfjarðarbær leggi fyrirtækinu til byggingaland bæjarins undir þynningarsvæði í framtíðinni.
4. Endurskoða þarf aðalskipulag bæjarins með tilliti til brottfalls þynningarsvæða og þeirri staðreynd að bæjarbúar höfnuðu stækkun álversins. Skipuleggja þarf framtíðarbyggingaland bæjarins til suðurs þannig að framtíðar íbúabyggð bæjarins verði innan við ofanbyggðaveginn og ekki fyrir ofan ofanbyggðaveginn eins og gert er ráð fyrir í dag.
5. Fara þarf gaumgæfilega yfir skipulagt iðnaðarsvæði í suðurhluta Hafnarfjarðar sunnan Reykjanesbrautar en þar þarf bærinn að hafa forgöngu um samstarf Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits, Vinnueftirlits og fleiri aðila til þess að koma umhverfismálum í viðunandi horf á því svæði.
Þetta eru verkefni dagsins sem blasa við. Áhugavert er að vita stöðuna á þessum málum í dag!